Velkomin á síðuna okkar
Síður fyrir dýrin
Dýrabúðir
13.2.2008 05:14:37 / fuglogfiskur

Um Íslenska hestinn..

Íslenski hesturinn


Fjölskyldugerð:
hestur, hryssa og folald.
Þyngd: 350-450 kg.
Fengitími: að vori og að sumri.
Meðgöngutími: rúmlega 11 mánuðir.
Fjöldi afkvæma: 1 folald (sjaldan 2).
Nytjar: útreiðar, kjöt, húð og hár.

Fjöldi árið 2004: 71.412.

  • Íslenski hesturinn er meðal stór en afar kraftmikill, lipur og snöggur.
  • Hann hefur sérstaka reiðhæfileika sem hafa þróast í 1100 ár, og er eini hesturinn í heiminum sem býr yfir fimm gangtegundum.
  • Litafjölbreytnin er víðfræg og eru í raun til hundruð litasamsetninga á íslenska hestinum. Má þar nefna mósótt, leirljóst, vindótt, glófext, skjótt, litförótt og jarpt. Einnig smá dæmi um einkennilegar litasamsetningar: rauðvængskjóttur, glóbrúnn, dökkmoldóttur, ljósskjóttur og fagurjarpur.

Íslenski hesturinn - Nánari upplýsingar
Íslenski hesturinn er meðalstór en afar kraftmikill, lipur, geðgóður og snöggur. Við það að hafa einangrast hér á eylandinu hefur hann vel aðlagast líkamlega þeim aðstæðum sem hann býr við. Hann er loðinn og samanrekinn til að geta tekist á við óblítt veðurfar og árstíðasveiflur. Hann er einnig sérlega fótviss og ratvís. Hann þykir einstaklega þýður og telja margir að það sé vegna þess að hann var ekki eins mikið látinn draga vagna eða önnur hlöss hér áður fyrr, heldur látinn bera byrðarnar á bakinu.

Atferli og afkvæmi
Hestar eru hópdýr og sækjast eftir félagsskap við aðra hesta. Þeir eru líka flóttadýr enda fljótir að taka til fótanna ef þeim finnst hætta steðja að. Flóttaeðlið er enn þá mög ríkt í hestum nútímans og oft má sjá þá sofa standandi sem áður fyrr var nauðsyn sökum rándýra. Þeim líkar illa ótraust land, eins ef eitthvað hreyfist snöggt eða gefur frá sér holhljóð. Hestum er mjög annt um að hafa hausinn frjálsan og það getur verið mjög mikilvægt í upphafi tamningar að gefa hestunum færi á að hreyfa hausinn og öðlist þannig traust á manninn.
Hryssur ganga með í um 11 mánuði og kasta yfirleitt að vori. Þær kasta nánast alltaf einu afkvæmi en það kemur fyrir að það komi tvö. Þekkt hefur verið að hryssur taki að sér folöld ef slys verður á einhverri hryssunni innan stóðsins (hrosshópsins). Stóðhest (graðhest) þarf svo hryssan að hitta fljótlega eftir að folaldið er komið í heiminn ef fá á annað folald að ári liðnu.

Skynfærin
Sjónsvið hests er mjög vítt sökum þess að augun eru staðsett mjög utarlega á höfðinu líkt og hjá flestum jurtaætum. Grasbítar þurfa stöðugt að meta umhverfið og nota til þess bæði sjón, heyrn og lyktarskyn. Þetta þróaðist út frá lifnaðarháttum forfeðra hestsins og annarra grasbíta á sléttunni þar sem stöðugar hættur leyndust líkt og áður hefur verið minnst á. Hestar geta sem dæmi heyrt og greint hljóð sem berst úr sitt hvorri áttinni því eyru hestsins geta snúið þannig, annað fram og hitt aftur. Lyktarskynið nota þeir líka til að kynnast hvor öðrum og heilsast með því að lykta af viðkomandi og finna út þannig hvaða viðbrögð eru viðeigandi. Hryssa þekkir afkvæmi sitt á lyktinni og lyktarskynið er afar mikilvæg stóðhestum sem getur fundið út hvort hryssa sé í látum (tilbúin til mökunar) á lyktinni sem hún gefur frá sér.

Kynbætur
Þróun íslenska hestsins hefur tekið stakkaskiptum á öldinni sem leið. Þar bar sérstaklega til tíðinda þegar hesturinn varð ekki lengur þarfasti þjónninn, við því hlutverki tóku dráttavélar og bílar. Því þurfti að taka ákvörðun um miðja 20. öldina hvaða hlutverki íslenski hesturinn ætti að þjóna í þjóðfélaginu framvegis. Talið var best að gera úr honum vel skapaðan reiðskjóta og selja síðan bestu eintökin út fyrir landsteinana. En fyrst þurfti að bæta og laga til vöxt, skapferli og liti. Miklar kröfur voru nú settar í ræktunarstarfið, íslenski hesturinn tók stakkaskiptum í stærð, gangtegundum og litaflóru. Það er ekki hægt að segja annað en vel hafi tekist til því nú í dag eru íslenskir knapar sem og erlendir að vinna til verðlauna á heimsmeistaramótum á íslenskum ættbókarfærðum gæðingum!

Klukkan
RSS tengill